Sjö námsstyrkir og tveir styrkir til rannsókna hafa verið veittir úr Þórsteinssjóði til blindra og sjónskertra stúdenta við Háskóla Íslands. Þetta er í þrettánda skipti sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum og nemur upphæð styrkjanna samtals 14,8 milljónum króna.
Megintilgangur Þórsteinssjóðs er að styrkja blinda og sjónskerta stúdenta til náms við Háskóla Íslands. Enn fremur er sjóðnum ætlað að efla rannsóknir sem auka þekkingu og skilning á lífi og aðstæðum blindra og sjónskertra einstaklinga og fjölga tækifærum blindra og sjónskertra til að auðga og efla líf sitt. Sérstök áhersla er lögð á styrki til rannsókna í félags- og hugvísindum sem falla að tilgangi sjóðsins.
Námsstyrki í ár hljóta sjö nemendur við Háskóla Íslands. Það eru Eydís Arna Sigurbjörnsdóttir, BA-nemi í félagsráðgjöf við Félagsvísindasvið, Júlíus Birgir Jóhannsson, BA-nemi í táknmálsfræði við Hugvísindasvið, Kaisu Kukka-Maaria Hynninen, BA-nemi í íslensku sem annað mál við Hugvísindasvið, Laufey Ýr Gunnarsdóttir, BA-nemi í japönsku máli og menningu við Hugvísindasvið, Patrekur Andrés Axelsson, MS-nemi í sjúkraþjálfunarfræði við Heilbrigðisvísindasvið, Sandra Sif Gunnarsdóttir, MS-nemi í klínískri sálfræði við Heilbrigðisvísindasvið, og Steve Anaya, MA-nemi í félagsfræði við Félagsvísindasvið.
Rannsóknarstyrki hljóta Eliona Gjecaj, doktorsnemi í fötlunarfræði, og Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir, MA-nemi í fötlunarfræði, báðar við Félagsvísindasvið.
Eliona Gjecaj hlýtur styrk fyrir doktorsrannsókn sína „Fatlaðar konur og ofbeldi: Aðgengi að réttlæti“. Rannsóknin fjallar um fatlaðar konur og margs konar ofbeldi sem þær hafa verið beittar, reynslu þeirra af því að tilkynna ofbeldið og því ferli sem þá tekur við og snýr m.a. að lögreglurannsókn, hugsanlegri ákæru og málsókn fyrir dómstólum. Í rannsókninni er fléttað saman sjónarmiðum mannréttinda, fötlunarfræða, kynjafræða og lögfræði til að öðlast sem heildstæðasta mynd af viðfangsefninu með áherslu á aðgengi fatlaðra kvenna að réttlæti. Gagna er aflað með viðtölum við fatlaðar konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi, aðila innan réttarvörslukerfisins og aðra sem koma að málum kvennanna og/eða styðja þær við slíkar aðstæður. Jafnframt fer fram greining á dómsskjölum, lögum og öðrum opinberum gögnum og litið til alþjóðlegra mannréttindasáttmála.
Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir hlýtur styrk fyrir meistaraverkefni sitt „Líf og aðstæður einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu“. Markmiðið með rannsókninni er að öðlast þekkingu og skilning á því hvernig búið er að fólki með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu hér á landi og hvernig þessir sömu einstaklingar upplifa líf sitt og aðstæður. Sérstök áhersla verður á sjálfskilning þeirra, þörf þeirra fyrir þjónustu og hvernig þátttakendur upplifa að þjónustuþörfum sínum sé mætt. Við vinnu verkefnisins verður hugað sérstaklega að þeim hindrunum sem fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu mætir innan samfélagsins. Rannsóknin byggist bæði á viðtölum við fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og rituðum upplýsingum um stöðu þessa hóps.
Þórsteinssjóður var stofnaður af Blindravinafélagi Íslands 6. desember 2006. Tilkoma hans eykur möguleika blindra og sjónskertra stúdenta til háskólanáms. Hlutverk og tilgangur Þórsteinssjóðs helgast af æviverki Þórsteins Bjarnasonar sem fæddist 3. desember árið 1900. Hann stofnaði Blindravinafélag Íslands 24. janúar 1932 og var það fyrsti vísir að félagi til stuðnings fötluðu fólki hér á landi. Þórsteinn helgaði líf sitt blindum og sjónskertum einstaklingum á Íslandi á síðustu öld án þess að þiggja nokkru sinni laun fyrir heldur lagði félaginu þvert á móti til fé úr eigin vasa.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið skólanum allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.