Hrafnhildur Hannesdóttir, doktorsnemi við Jarðvísindadeild
Hvergi hefur sambúð manns og jökuls verið eins náin og í Austur-Skaftafellssýslu og saga jöklabreytinga á fyrri öldum er þar vel skráð," segir Hrafnhildur Hannesdóttir, doktorsnemi í Jarðvísindadeild.Talsverðar rannsóknir hafa átt sér stað á suðurhluta Vatnajökuls undanfarin ár. Þar hafa tengsl jökla og loftslagsbreytinga verið skoðuð. Skriðjöklar í Austur-Skaftafellssýslu eru á hlýjasta og úrkomumesta svæði landsins. Þeir bregðast hratt við öllum breytingum. Jöklar hafa óvíða breyst meira á liðnum árum en við sunnanverðan Vatnajökul. Jökulmenjar geyma upplýsingar um mestu útbreiðslu jöklanna. Þær hafa varðveist mjög vel þarna fyrir austan. Stór hluti verkefnisins hefur verið að kortleggja jökulgarða og jaðarurðir í nágrenni þeirra.
„Við rekjum sögu jöklabreytinga í Austur-Skaftafellssýslu frá því um 1700 fram til dagsins í dag," segir Hrafnhildur. „Notast er við gagnasöfn til að stilla af líkön sem herma eftir viðbrögðum jöklanna við breytingum í loftslagi. Tíu skriðjöklar eru skoðaðir í þessari rannsókn. Jöklarnir eru ólíkir að stærð og lögun og bregðast mismunandi við sömu breytingum á loftslagi." Hrafnhildur segir að markmiðið sé að geta útskýrt þennan mun og fá trúverðuga mynd af því hvernig líklegt er að jöklarnir breytist á næstu áratugum, að gefnum forsendum um loftslag.
,,Meðalárshiti síðasta áratugar er um það bil einni gráðu hærri en við lok 19. aldar og á þeim tíma hefur rúmmál Vatnajökuls rýrnað um 11 prósent. Það verður spennandi að sjá hversu hraðar breytingarnar verða á næstu árum," segir Hrafnhildur.
Að sögn Hrafnhildar mun bráðnun íslenskra jökla ekki valda nema eins millimetra hækkun í heimshöfunum. Hún nefnir að afrennsli vatns frá jöklunum hafi og muni breytast talsvert á næstu árum. „Austurfljót í Hornafirði og Skeiðará hafa nú þegar horfið úr farvegum sínum," segir hún.
Mikilvægi íslenskra jökla fyrir fræðimenn er ekki síst vegna þeirra rannsókna sem staðið hafa yfir í marga áratugi. Þeir veita þar af leiðandi upplýsingar um við hverju má búast á öðrum svæðum á jörðinni með álíka jöklum. Hrafnhildur segist sannfærð um að niðurstöður rannsóknarinnar muni gagnast við framtíðarskipulag byggðar sunnan Vatnajökuls, og þá sérstaklega fyrir vegagerð, landnýtingu og gróðurvernd.
Leiðbeinandi: Helgi Björnsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun.
Hrafnhildur hlaut doktorsnemastyrk úr Rannsóknasjóði 2007.