Ingibjörg Georgsdóttir, doktorsnemi við Læknadeild
Veigamiklar framfarir í læknisfræði á tíunda áratug síðustu aldar, sem leiddu til þess að lífslíkur lítilla fyrirbura jukust umtalsvert, eru kveikjan að doktorsrannsókn Ingibjargar Georgsdóttur barnalæknis. Rannsóknin snýst um að kanna afdrif lítilla fyrirbura með tilliti til heilsufars, þroska og framtíðarhorfa.
„Ég fékk áhuga á þessu viðfangsefni þegar ég var við nám í nýburalækningum í Vancouver í Kanada árið 1988, en þar fékk ég tækifæri til að starfa með hópi sérfræðinga sem fylgdi eftir litlum fyrirburum fram að skólaaldri. Eftir að heim var komið hóf ég störf á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og sinnti börnum með þroskafrávik og fatlanir, meðal annars börnum sem höfðu fæðst fyrir tímann,“ segir hún.
Í doktorsrannsókn sinni, sem Ingibjörg hlaut styrk til úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands árið 2012, hefur hún fylgst með því hvernig fyrirburum, sem fæddust á árunum 1991–1995 og voru innan við eitt kíló við fæðingu, hefur vegnað. Ingibjörg segir börnin hafa verið skoðuð á mismunandi tímabilum með tilliti til heilsufars, þroska og fatlana.
„Í rannsókninni kom fram að fjórðungur barnanna skar sig ekki frá jafnöldrum sínum við fimm ára aldur, hjá helmingi þeirra greindust frávik í þroska eða færni og fjórðungur glímdi við alvarleg þroskafrávik. Á unglingsárum var staðan metin þannig að fjórðungur unglinganna væri með fötlun. Meirihluti þeirra glímdi enn við langvinna sjúkdóma sem þörfnuðust reglulegrar læknismeðferðar og meirihluti þeirra átti jafnframt við námserfiðleika að etja. Árangur í samræmdum prófum í íslensku og stærðfræði var marktækt slakari en hjá fullburða jafnöldrum,“ bendir Ingibjörg á.
Hún segir niðurstöðurnar staðfesta að umtalsverður hluti léttra fyrirbura þurfi meiri umönnun, þjálfun, kennslu og stuðning en fullburða jafnaldrar þeirra. Hún segir að spurningum um langtímahorfur fyrirbura hafi þó ekki verið svarað að fullu. „Bent hefur verið á að því lengur sem fylgst er með litlum fyrirburum þeim mun fleiri börn og unglingar greinast með vanda,“ segir Ingibjörg að lokum.
Þess má geta að Ingibjörg hlaut einnig styrk vegna verkefnisins úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar læknis sumarið 2013.
Leiðbeinandi: Ásgeir Haraldsson, prófessor við Læknadeild.